John Connolly: Fólkið hér er frábært

Heimasíðan heldur áfram að taka spjall við leikmenn Dalvíkur/Reynis og að þessu sinni tókum við stöðuna á markmanninum okkar John S. Connolly.
John, sem er Bandaríkjamaður, hefur spilar gífurlega vel í sumar og sett sinn svip á liðið. Ekki nóg með það að hann hefur staðið sig vel innan vallar þá er hann gæðablóð utan vallar og aðlagast lífinu á Íslandi vel.

En hvernig kom það til að hann ákvað að koma til Íslands og af hverju Dalvík/Reynir?
Ég kom hingað til lands í fyrra og þá til Reykjavíkur og æfði með liði þar. Sú reynsla kveikti í þeirri löngun að koma til Íslands og spila. Ég fékk ágætis meðmæli og eitt leiddi að öðru og ég komst í samband við Dalvík. Það var vissulega óvænt ánægja en fullkomið skref fyrir mig.“

Hvernig voru fyrstu dagarnir þínir hér á Íslandi og lífið almennt á Íslandi?
„Ég kom til Akureyrar um mánaðarmótin mars/apríl. Þetta er búinn að vera frábær tími. Fyrstu dagana sem ég var á Íslandi þá snjóaði gjörsamlega látlaust og ég elskaði það!“

„Lífið á Íslandi er frábært. Ég var ekki viss við hverju ég ætti að búast en þetta hefur allt staðið undir væntingum og rúmlega það.
Stundum var pínu kalt hér á norður Íslandi en landið er hrein paradís! Fólkið í kringum félagið hefur látið mér líða eins og heima hjá mér undanfarna mánuði og það verður leiðinlegt að kveðja þegar tímabilið er búið.“

Umræðan snýst þá að liðinu og stemningunni í sumar. Hvernig var þetta fyrir hann að upplifa?
Mér persónulega finnst andrúmsloftið í kringum klúbbinn frábært. Þetta er einstakt vegna þess hversu lítill bærinn er og einnig hversu margir uppaldir heimastrákar eru í liðinu. Sú staðreynd hjálpar öllum bænum að tengja betur við liðið og leikmenn og ég er virkilega þakklátur bæði félaginu og fólkinu í kringum liðið hversu vel þau hafa tekið á móti mér.
Strákarnir í liðinu hafa verið frábærir, bæði innan vallar sem utan. Það er frábær mórall og tenging allt frá yngsta til elsta manns í liðinu er ótrúlega góð. Ég hef ekki upplifað slíkt hjá öðrum liðum“.

Næst ræðum við um sumarið sem er að klárast. John hefur haldið markinu hreinu 9 sinnum í sumar og aðeins fengið á sig 14 mörk.
„Þetta sumar hefur verið frábært og mjög minnistætt. Úrslitin hafa verið góð og mér finnst eins og við séum verðskuldað á toppnum. Að halda markinu hreinu svona oft er mikið afrek og viðurkenning fyrir liðið. Varnarleikur okkar er það sem hefur skapað þessi góðu úrslit og endurspeglast í stöðu okkar í deildinni. Persónulega finnst mér þetta mikið afrek að hafa haldið svona oft hreinu en ég veit það manna best að þetta væri ekki hægt án strákanna sem eru fyrir framan mig“.

Hver er munurinn á fótboltanum sem þú ert vanur og fótboltanum hér á Íslandi?
„Fótboltinn hér er mun beinskeyttari en það sem ég var vanur. Hraðinn hér er meiri og mér líkar það heilt yfir betur. Hér er meiri áhersla á að ráðast á mark andstæðinganna. Þetta er öðruvísi fyrir markmann og mér líkar vel að þurfa að slást við mikið af fyrirgjöfum og hröðum sóknum“.

Að lokum, million-dollara spurningin. Nú er samningur þinn að renna út hjá D/R, er möguleiki á því að þú komir aftur næsta tímabil?
„Klárlega. Auðvitað eru nokkrir hlutir sem ég þarf að íhuga og taka með inn í heildar myndina. En ég er klárlega opinn fyrir möguleikanum að koma aftur. AFRAM DALVIK“

 

John Connolly
Markmaður
#1

Aðrar fréttir