Kelvin: Ógleymanleg lífsreynsla

Hinn öflugi varnarmaður Dalvíkur/Reynis, Kelvin Sarkorh, hefur sett sinn svip á liðið í sumar og slegið í gegn bæði innan vallar sem utan. Þessi auðmjúki drengur hefur í sumar þjálfað unga og efnilega krakka hjá félaginu við góðan orðstír og gefið mikið af sér.
Kelvin, sem er Bandaríkjamaður, en ættaður frá Líberíu, spjallaði aðeins við heimasíðuna um sumarið og lífið á Íslandi.

Hvernig kom það til að þú komst alla leið til Íslands til að spila?
„Í október í fyrra skráði ég mig í æfingabúðir heima í Bandaríkjunum þar sem ég æfði og spilaði fyrir framan fullt af liðum og þjálfurum, þ.a.m. Íslenskum þjálfurum. 

Eftir þessar æfingar fékk ég tilboð frá Þór Akureyri um að koma og æfa með þeim á Íslandi sem ég þáði.

Þegar ég kom hingað til lands og æfði með Þór þá gengu hlutirnir ekki alveg upp. Í framhaldi af því komu Svenni og Kristinn hjá Dalvík/Reynir og ræddu við mig og hingað kom ég.“

Þetta hljóta að hafa verið mikil viðbrigði fyrir þig að koma til Íslands. Sérðu eftir þessu?
„Svo sannarlega sé ég ekki eftir neinu. Þetta er sennilega ein af betri ákvörðunum sem ég hef tekið.”
“Þegar ég fyrst kom hingað til lands þá var þetta auðvitað pínu sjokk. Það var mikill snjór og kalt. En þegar snjórinn létti og það fór að birta til þá sá maður betur fegurð landsins og ég komst betur inn í hið daglega líf.“

En hvað finnst þér um bæinn okkar (Dalvík) og hvernig hafa strákarnir tekið á móti þér?
„Mér líkar vel að vera hér á Dalvík. Frá mínum fyrsta degi hefur liðið og fólkið í kringum félagið tekið á móti mér með opnum örmum og karakterinn sem býr í fólki hér er óútskýranlegur. Það hefur hjálpað mér mikið.“

„Strákarnir í liðinu hafa tekið mér vel, betur en ég þorði að vona. Í þeim liðum sem ég hef áður verið í hafa alltaf myndast einhverjar grúbbur í klefanum, sem er ekki gott fyrir liðsheildina og ef liðið er að stefna að einhverju. Hjá D/R ná allir vel saman bæði innan sem utan vallar og tel ég það vera einn af lykilþáttunum í velgengni okkar í sumar.“

Næst tölum við aðeins um tímabilið sem er að klárast.
„Fyrir tímabil var okkur spáð í botnbaráttu. Mér leist ekkert á það!
Annað kom á daginn og eftir að hafa spilað við öll liðin þá finnst mér við verðskulda að vera búnir að tryggja okkur sæti upp um deild. Við lögðum mikið á okkur í vetur, félagið leggur mikið á sig og fólkið í kringum félagið á þetta skilið.”

“Við höfum náð að halda markinu okkar hreinu 9 sinnum í sumar og aðeins fengið 14 mörk á okkur í heildina. Það er ekki slæmt. Það er mitt markmið fyrir hvern leik að fá ekki mörk á okkur og mitt starf inn á vellinum. Við erum að verjast vel sem heild, allt frá fremsta manni til aftasta. Það hefur verið mikið talað um að við verjumst vel en sóknarmenn okkar eiga allt hrós skilið. Gæðin sem við höfum eru gífurlega mikil.“

Hvað tekur við hjá Kelvin Sarkorh?
„Lífið hér á Íslandi hefur verið frábært, í hreinskilni sagt. Í fyrstu var ég ekki sannfærður en þegar ég lít til baka þá hefur þetta verið ógleymanleg lífsreynsla og ég er virkilega þakklátur. Hver hefði haldið að ég ætti eftir að koma til Íslands og spila fótbolta?!
Sannkallaður draumur.“

„Hvað framhaldið varðar þá er ég klárlega opinn fyrir möguleikanum að koma aftur næsta sumar. Ég er þakklátur fyrir allt sem félagið hefur gert fyrir mig en ég fer heim núna strax að tímabilinu loknu og ræði við mína fjölskyldu. Ég mun reyna taka rétt skref fyrir minn feril sem fótboltamaður.“

Kelvin Sarkorh
Varnarmaður
#15

Aðrar fréttir