Flottur heimasigur á laugardaginn
Á laugardaginn s.l. tók Dalvík/Reynir á móti Vængjum Júpíters. Leikið var á iðagrænum Dalvíkurvelli og var góð stemning í stúkunni.
Dalvík/Reynir voru töluvert sterkari aðilinn í fyrrihálfleik og má í raun segja að eitt lið hafi verið á vellinum. Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði fyrsta mark leiksins á 22. mínútu leiksins þegar hann snéri varnarmenn Vængjanna af sér og kláraði færið fallega.
Á 32’mín bætti Ingólfur Árnason við öðru marki okkar manna þegar hann sendi knöttinn í netið af stuttufæri eftir hornspyrnu D/R.
Nökki Þeyr var ekki hættur. Á 40’mín tók hann sig til og plataði vörn gestanna vægast sagt upp úr skónum og skoraði einkar fallegt mark og kom okkar mönnum í þægilega 3-0 forystu.
Í seinni hálfleiknum róaðist full mikið yfir okkar mönnum og Vængirnir fengu hornspyrnu á 55′ mínútu leiksins og náðu að minnka muninn. Markið kom eftir mistök hjá D/R.
Meira náðu Vængirnir ekki að ógna marki heimamanna og því 3-1 heimasigur staðreynd.
Næsti leikur:
Næsti leikur D/R er á föstudaginn en þá er leikið gegn KH á Valsvelli. KH er að mörgum talið með eitt af bestu liðum deildarinnar, en bæði lið eru með 15 stig í 2-3 sæti.