9-manna móti á Dalvíkurvelli frestað
Til stóð að halda prufumót á Dalvíkurvelli um helgina þar sem prófa átti nýtt fyrirkomulag fyrir 4. flokk, svokallaðan 9-manna bolta.
Því móti hefur verið slegið á frest vegna Covid smita á Dalvík.
Mikil umræða hefur verið í gangi innan knattspyrnusamfélagsins um hvernig bæta megi fyrirkomulagi í 4. flokki karla og kvenna. Oft þykir það stórt stökk að fara af litlum velli í 5.flokki og upp á stóran völl með stór mörk í 4.flokki. Eins getur það reynst þrautinni þyngri fyrir minni lið að halda úti 11 manna liði í 4.flokki.
KSÍ hefur því til skoðunar, ásamt félögum á landinu, 9-manna bolta fyrir þennan aldursflokk, en slíkt fyrirkomulag er þekkt víðsvegar í evrópu.
Fyrirkomulagið er þannig að spilað er á hálfum velli og á stór mörk. Níu leikmenn inn á vellinum úr hvoru liði.
Ýmsar hugmyndir að leikreglum eru í skoðun, t.d. að engin horn né innköst eru tekin heldur boltinn settur í leik frá markmanni.
Eins þegar mörk eru skoruð þá fær liðið sem skorar boltann aftur hjá sínum markmanni (make it, take it regla).
Tveir dómarar sjá um að dæma og er rangstæðu reglan með, frjálsar skiptingar hjá þjálfurum.
Hugmynd er uppi um að halda 9-manna mót á Dalvíkurvelli 2x á ári, í október/nóvember og aftur í apríl, og gera að árlegum viðburði.
Prófa átti fyrirkomulagið núna um helgina en eins og áður sagði hefur því verið frestað.