Bestur í 2.deild: Borja López!

Mynd: fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Fréttavefurinn fótbolti.net stendur fyrir vali á leikmanni umferðarinnar í 2.deild karla. Eftir 10. umferð deildarinnar var okkar maður, Borja López Laguna, valinn maður umferðarinnar eftir stórgóða frammistöðu gegn ÍR.

Þetta sagði Borja í viðtali við fótbolta.net

„Það voru svolítil vonbrigði að vinna ekki leikinn, en svona er fótboltinn. Þú getur ekki alltaf unnið og að minnsta kosti náðum við í jafntefli,“segir Borja við Fótbolta.net. 

„Við hefðum getað gert meira. Þetta var leikur sem við hefðum átt að vinna, en við gerðum það ekki. Eitt stig er fínt og við verðum að halda áfram.“

„Ég er miðjumaður og ég get líka spilað fyrir aftan sóknarmanninn. Mér finnst gaman að blanda mér í sóknarleikinn,“ segir Borja sem spilaði á miðri miðjunni gegn ÍR en tókst samt að skora þrennu. 

„Í fyrsta markinu fór ég fram hjá tveimur leikmönnum nálægt teignum og setti boltann út við stöngina. Í öðru markinu skoraði ég eftir fyrirgjöf og þriðja markið kom úr vítaspyrnu.“

Spilaði í unglingaliðum Real Madrid
Borja López er 24 og vildi hann kynnast því hvernig það væri að spila utan Spánar. 

„Ég fékk tækifærið til að koma hingað og sagð ég bara já. Ég vildi kynnast því hvernig það væri að spila í einhverju öðru landi og þetta ævintýri er búið að vera mjög skemmtilegt.“

Borja kom til Dalvíkur frá spænska liðnu S.D Canillas. Hann var áður í unglingaliðum Real Madrid. 

„Ég spilaði fyrir Real Madrid þegar ég var yngri, 12-13 ára. Ég naut þess mikið vegna þess að það er draumur þegar þú ert ungur strákur. En það var líka flókið að spila hjá svona félagi. Eftir þessa reynslu hef ég vaxið sem manneskja og leikmaður.“

Erum með gott lið!
Dalvík/Reynir er í áttunda sæti 2. deildar. Að lokum var Borja spurður út í framhaldið. 

„Við erum auðvitað bjartsýnir. Við verðum að bæta fyrir mistökin sem við höfum verið að gera undanfarið og þá er ég viss um að við förum að vinna leiki. Við erum með mjög gott lið!“ sagði Spánverjinn að lokum