Dalvík/Reynir tekur ekki þátt í Kjarnafæðismótinu

Dalvík/Reynir hefur ákveðið að draga liðið úr Kjarnafæðismótinu og mun ekki taka þátt þetta árið. Þetta var niðurstaðan eftir ósætti milli mótshaldara og Knattspyrnudeildar Dalvíkur um uppstillingu mótsins.

Dalvík/Reyni var stillt upp í B-riðli og átti þar að leika gegn KA3, Þór3 og Samherjum. Leikirnir voru flest allir settir á KA-völl.

Kjarnafæðismótið hefur verið fastur liður í undirbúningi liða á svæðinu undanfarin ár. Allt frá stofnun mótsins hefur Dalvík/Reynir tekið þátt, ef frá er talið eitt ár, en liðið endaði í 2. sæti A-deildar í fyrra.
Á þessum tímapunkti fannst stjórn og þjálfurum D/R þessi uppstilling mótsins ekki vera verkefni við hæfi og er þetta sagt með fullri virðingu fyrir öðrum liðum í B-riðli.
Félagið kom fram með tillögur að uppstillingu mótsins í ár, þar sem lið fengju jafna og flotta leiki sem ætti að vera eitthvað sem allir væru að leitast eftir á þessum tímapunkti, en þeim tillögum var ekki einu sinni svarað.

Stefnan er sett á að hefja mótið um miðjan janúar, ef sóttvarnarlög leyfa en það er Knattspyrnudómarafélag Norðurlands sem stendur á bak við mótið, líkt og undanfarin ár.

Aðrar fréttir