Dalvíkurvöllur í slæmu ásigkomulagi

Dalvíkurvöllur kom gífurlega illa undan vetri eins og sjá má að meðfylgjandi myndum. Ljóst er að völlurinn er illa kalinn og fara þarf í kostnaðarsamar aðgerðir til að ná lífi í hann aftur.

“Um 250 kg af fræi verða sett í völlinn með tvöfaldri krosssáningu ásamt því að töluvert magn af sandi verður sett á völlinn. Þessi verður svo fylgt eftir með áburðargjöf ásamt reglulegri vökun. Ráðist verður í þessar framkvæmdir strax” segir Steindór Ragnarsson golfvallarsérfræðingur hjá GA, en þeir hafa séð um sáningu í Dalvíkurvöll undanfarin ár.

Ljóst er að klakinn hefur legið of lengi á vellinum í vetur þrátt fyrir björgunar tilraunir frá sjálfboðaraðilum knattspyrnudeildarinnar í vetur/vor.

Fyrsti heimaleikur D/R á að fara fram laugardaginn 26. maí gegn Ægi, en ólíklegt þykir að völlurinn verði kominn í leikhæft form fyrir þann tíma.

Eins og sjá má á frétt Kaffisins komu vellir á norðurlandi misvel undan vetri. Þórsvöllur lítur ágætlega út en Akureyrarvöllur var töluvert skemmdur. Völlurinn á Grenivík er einnig mikið skemmdur og lítur mjög illa út.

Umræðan um gervigras poppar alltaf upp í kringum svona fréttir en nýverið fékkst samþykkt í fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar um 170 m.kr. til uppbyggingar á fullbúnum gervigrasvelli á Dalvík.
Það eru vissulega frábærar fréttir en við munum nánar fjalla um það mál síðar.

Aðrar fréttir