Dalvíkurvöllur vígður – Myndaveisla

Laugardaginn 31. ágúst var nýr og glæsilegur gervigrasvöllur á Dalvík formlega vígður með pompi og prakt.

Mikill fjöldi fólks var viðstaddur vígsluna og dagskráin var afar fjölbreytt. Um morguninn fór fram fótboltaleikur yngri iðkenda gegn foreldrum/forráðamönnum og hamborgaragrill. Við tók svo formleg hátíðardagskrá og vígsla sem Gísli Bjarnason stjórnaði.
Til máls tóku m.a. þau Katrín Sigurjónsdóttir, bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar, Einar Hafliðason, stjórnarmaður UMSE, Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar, Jónína Guðrún Jónsdóttir, stjórnarmaður UMFS, og Guðni Bergsson, formaður KSÍ,

Að vígslu lokinni tók við heimaleikur D/R gegn Vestra, þar sem Vestra-menn höfðu betur 2-1.
Í hálfleik var áhorfendum boðið upp á hátíðarkaffi þar sem Dalvíkurbyggð bauð fólki upp á glæsilegar súkkulaðikökur og kaffi.

Nokkrir aðilar voru heiðraðir fyrir sín störf í þágu félagsins. Bræðurnir Björgvin og Gunnlaugur Jón Gunnlaugssynir voru sæmdir gullmerki KSÍ, en þeir eru afar vel að þeim heiðri komnir. Þeir bræður hafa m.a. afrekað það að taka virkann þátt sem sjálfboðaliðar í uppbyggingu á 5 knattspyrnuvöllum í Dalvíkurbyggð. Tóku þeir við gullmerkinu af Guðna Bergsyni, formanni KSÍ.
Björn Friðþjófsson var síðan sæmdur gullmerki UMSE fyrir starf sitt í þágu íþrótta- og ungmennafélagsmála, og fékk Björn jafnframt viðurkenningar frá UMFS og Knattspyrnudeild fyrir sitt gríðarmikla og ómetanlega starf til vallarframkvæmda.
Tryggvi Guðmundsson (Höberinn) fékk einnig þakklætisvott frá félaginu fyrir sitt gríðarmikla vinnuframlag.

Knattspyrnudeild Dalvíkur vill nota tækifærið og þakka þeim sem komu að þessum degi með einum eða öðrum hætti.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá deginum, en það var Haukur Snorrason sem tók myndirnar: