Dramatík á Dalvíkurvelli

Á föstudaginn síðastliðinn tóku heimamenn í Dalvík/Reyni á móti Augnablik. Leikið var í mígandi rigningu á Dalvíkurvelli en frábær mæting var á völlinn.
Fyrir leik hittust stuðningsmenn og ársmiðahafar í sérstöku upphitunarpartýi sem gekk vonum framar. Um 60-70 manns mættu á svæðið og var stemningin frábær!

Leikurinn byrjaði heldur illa fyrir okkar menn í D/R þar sem Augnablik skoraði fyrsta mark leiksins eftir 6. mínútur.
Nökkvi Þeyr jafnaði hinsvegar metin eftir frábæra sókn hjá D/R upp hægri vænginn en þetta var jafnframt níunda mark Nökkva í sumar.
Adam var ekki lengi í paradís því á 24. mínútu komust Augnablik aftur yfir. Þar var að verki hinn leikreyndi Kristján Ómar en hann skoraði ótrúlegt mark með hægra herðablaðinu!
Leikmanni Augnabliks var svo vikið af velli á 39.mínútu þegar hann fór glæfralega í tæklingu og uppskar sitt seinna gula spjald.
Staðan eftir fjörugan fyrri hálfleik því 1-2 fyrir Augnablik og þeir manni færri.

Í þeim síðari réði D/R lögum og lofum en mörkin létu bíða eftir sér þrátt fyrir nokkur góð marktækifæri.
Jöfnunarmarkið datt hinsvegar á 67.mínútu þegar Angantýr Máni skoraði af stuttu færi eftir frábæran undirbúning frá Jóhanni Erni.
Á 83. mínútu kom svo sigurmark leiksins. Þar var að verki enginn annar en Þröstur Mikael Jónasson en hann þrumaði boltanum í markhornið. Frábært skot fyrir utan vítateig og óverjandi fyrir góðan markmann Augnabliks-manna.
Undir lok leiksins fór svo annað rautt spjald á loft en það fór á spilandi þjálfara Augnabliks-manna.

Lokastaða leiksins því 3-2 sætur sigur!

Næsti leikur liðsins er aftur heimaleikur, á sunnudaginn nk. gegn Sindra.

Hér er leikskýrsla leiksins.
Hér má sjá stöðutöflu 3. deildar.

Angantýr Máni Gautason, skoraði jöfnunarmarkið