Frábær sigur í Mjólkurbikarnum!

Í gær áttust Dalvík/Reynir og Þór Akureyri við í 2.umferð Mjólkurbikarsins. Leikið var í Boganum á Akureyri og var fjölmennt á pöllunum.

Leikurinn var bráðfjörugur frá fyrstu mínútu, hátt spennustig og menn tókust vel á.
Leikurinn var aðeins 17. mínútna gamall þegar Jónas Björgvin Sigurbergsson, leikmaður Þórs, skoraði glæislegt mark úr aukaspyrnu. Leikmenn Dalvíkur/Reynis komu hinsvegar sterkir til baka og jöfnuðu leikinn strax á 22. mínútu. Þar var að verki Pálmi Heiðmann Birgisson.
Þegar allt stefndi í að liðin færu jöfn inn í hálfleikinn skoruðu Þórsararnir gott skallamark eftir aukaspyrnu utan af væng og fóru þeir því með 2-1 forystu í leikhléið.

Þrátt fyrir að markið hafi eins og blaut tuska í andlit okkar manna komu liðsmenn D/R sterkir inn í síðari hálfleikinn.
Númi Kárason jafnaði leikinn með skallamarki eftir hornspyrnu á 57. mínútu. 2-2.
Einungis örfáum mínútum síðar áttu liðsmenn D/R frábæra sókn sem endaði með snyrtilegu marki frá Borja López Laguna, 2-3 fyrir okkar mönnum og klukkan stóð í 62.mínútum!

Við tók mikil og erfið varnarvinna, hlaup og djöflagangur. Þórsararnir áttu skot í slá og stöng, ásamt því að fá ódýra vítaspyrnu sem Alberto Aragoneses gerði sér lítið fyrir og varði frá sóknarmanni Þórsara.

En á endanum gall lokaflautið og okkar menn unnu því glæsilega 2-3 sigur á Inkassoliði Þórsara.

Frábær leikur, frábær skemmtun, gífurleg barátta og mikil gleði í leikslok.

Næstu dagar og vikur verða spennandi hjá liðinu okkar. Liðið er að fara í úrslitaleikinn í Lengjubikarnum á fimmtudaginn kemur.
Síðan tekur við leikur í 32liða úrslitum þann 30.apríl eða 1.maí og deildin hefst svo 4.maí.

ÁFRAM D/R

Aðrar fréttir