Frábært Norðurálsmót að baki
Leikmenn 7. flokks Dalvíkur héldu á Norðurálsmót ÍA á Akranesi helgina 8.-10. júní til að etja kappi við jafnaldra sína frá öllu landinu. UMFS Dalvík sendi tvö lið til leiks og fengu leikmennirnir 12 gríðarlega hvatningu frá foreldrum, systkinum, öfum og ömmum og fleiri aðdáendum liðsins daufa slaka úr norðrinu.
Sómi var af framkomu og leik liðanna uppi á skúraskaga sem heilsaði sem oft áður með vætu og kalsa á köflum. Liðin léku 10 leiki hvort um sig og var uppskeran ríkuleg í formi ánægjulegrar samveru utan vallar sem innan. Það er einmitt á svona mótum sem leikmenn læra mikið og hratt í öllu sem viðkemur knattspyrnu og gildi þess að vera hluti af liðsheild.
Fyrirkomulag mótsins var með þeim hætti að eftir fyrsta keppnisdag var liðum raðað eftir árangri og því léku Dalvíkingar gegn jafningjum sínum seinni tvo keppnisdagana. Þá sýndu leikmenn virkilega hvað í þeim býr í mörgum erfiðum leikjum. Þegar allt er talið unnu Dalvíkurliðin 15 leiki, gerðu tvö jafntefli og lutu í gras þrisvar sinnum. Leikmenn UMFS Dalvíkur þöndu netmöskva andstæðinganna yfir 70 sinnum og sóttu knöttinn í eigið net tæplega 20 sinnum.
Leikmenn UMFS Dalvíkur vour Hilmar Jóel Kristinsson, Hákon Bragi Heiðarsson, Hafdís Nína Elmarsdóttir, Barri Björgvinsson, Stefán Darri Gunnarsson, Arnór Darri Kristinsson, Hörður Högni Skaftason, Sveinn Heiðar Harðarson, Anton Andri Kárason, Arnór Atli Kárason, Hilmir Þór Hafþórsson og Egill Bjarki Ívarsson.
Elmar Sindri Eiríksson þjálfari 7. flokks.