Frumvarp um endurgreiðslu vegna framkvæmda

Yfirlitsmynd af Dalvíkurvelli

Þær jákvæðu fréttir bárust á dögunum að á Alþingi var flutt frumvarp um endurgreiðslu til félagasamtaka vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Lögunum er ætlað að styðja við mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir félagasamtaka sem heyra til þriðja geirans svokallaða, s.s. björgunarsveitir  og íþróttafélög, og hvetja til þess aðfélögin efli starfsemi sína eða bæti aðstöðu.

Ljóst er að þetta frumvarp er gríðarlega mikilvægt fyrir þá miklu framkvæmd sem framundan er við nýjan gervigrasvöll á Dalvík.

Flest þeirra félaga sem starfa að almannaheillum eru utan virðisaukaskattkerfisins og eiga  því ekki möguleika á að fá endurgreiðslu innskatts vegna framkvæmda við mannvirkjagerð.

Með endurgreiðslukerfi veitir ríkissjóður félagasamtökum til almannaheilla fjárhagslegan stuðning við uppbyggingu aðstöðu og verði frumvarpið að lögum öðlast félög innan þriðja geirans rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem fallið hefur til vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda sem miða að því að efla starfsemi eða bæta aðstöðu félaganna.

Flutningsmenn eru: Jón Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Ágúst ÓlafurÁgústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Ólafur Ísleifsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Willum Þór Þórsson.

Hvað þýðir þetta og hver eru næstu skref?

Málinu var vísað til viðskipta- og efnahagsnefndar þar sem Óli Björn Kárason er formaður. Sú nefnd fer yfir frumvarpið og sendir það út til hagsmunaaðila til umsagnar. Íþróttahreyfingin og Björgunvarsveitir þurfa þá að vera vakandi og senda inn umsagnir sem hvetja málið áfram.
Vonast er til þess að málið fari í aðra og þriðju umræðu í vor og klárist á þessu vorþingi.

Það er ljóst að ef þetta frumvarp hefur því veruleg áhrif á fjárhagshlutann í kringum framkvæmdina á Dalvíkurvelli.

Frekari fréttir um verkáætlun, kostnaðaráætlun og fleira verða settar í loftið á næstu dögum.

Dalvíkurvöllur