Fullkominn dagur á Dalvík

Í gær var sannkallaður hátíðardagur á Dalvík þar sem opnunarleikur á nýjum og stórglæsilegum gervigrasvelli á Dalvík fór fram.
Þróttur Vogum voru mótherjar okkar í þessum leik. Góð mæting var á leiknum og frábær stemning.

Leikurinn byrjaði rólega en undir lok fyrrihálfleiks skoruðu okkar menn tvö mörk á fimm mínútna kafla. Fyrsta markið á Dalvíkurvelli skoraði Dalvíkingurinn knái Viktor Daði Sævaldsson eftir frábæra sendingu frá Gianni.
Viktor Daði lagði svo upp annað markið fyrir Núma Kárason og staðan því 2-0 fyrir okkar mönnum í hálfleik.

Í seinnihálfleik reyndu Þróttarar að sækja mark án árangurs og kom Jóhann Örn Sigurjónsson okkur í 3-0.
Þróttarar minnkuðu muninn í 3-1 en stuttu síðar gerði Jóhann Örn sitt annað mark og tryggði okkur öruggan 4-1 sigur í leiknum.

Hér má sjá leikskýrslu leiksins

Heilt yfir var þetta frábær dagur á Dalvík. Sjálfboðaliðar lögðu hart að sér allt fram að síðustu mínútu til þess að gera svæðið og umhverfið klárt.

Þróttur Vogum færði félaginu gjöf fyrir leik en hér fyrir neðan má sjá þá Martein Ægisson frá Þrótti Vogum og Stefán Garðar Níelsson fyrir leik.
Virkilega vel gert hjá Þrótturum og sendum við þakkarkveðjur.

Marteinn Ægisson og Stefán Garðar Nielsson