Jafntefli í Breiðholti

Í gær héldu okkar menn í D/R suður á land og léku þar við ÍR-inga á Hertz vellinum.
Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru hinar bestu, töluverð rigning var í Reykjavík og völlurinn blautur.

Leikurinn byrjaði fjörlega en okkar menn áttu tvö skot í markstöngina með skömmu millibili.
ÍR-ingar komust yfir með gullfallegu marki eftir aukaspyrnu en Borja Lopez Laguna jafnaði nokkurm mínútum síðar með skoti úr teignum.
1-1 í hálfleik.

Í byrjun síðari hálfleiks gerði Borja Lopez sitt annað mark eftir huggulega sókn.
Adam var ekki lengi í paradís því ÍR-ingar skoruðu tæpt mark nokkrum mínutum síðar þar sem ágætur línuvörður leiksins dæmdi að boltinn hafi farið inn fyrir línuna, okkar mönnum til mikilla ama.
ÍR-ingar komust svo í 3-2 á 83. mínutu leiksins og virtust ætla stela sigrinum, en Borja López Laguna skoraði sitt þriðja mark og jafnaði metin úr vítaspyrnu sem Dalvík/Reynir fékk á 91. mínútu eftir að varnarmaður ÍR handlék boltann innan teigs.

Lokastaða leiksins því 3-3 jafntefli.

Hér má sjá stöðuna í deildinni

Hér má sjá myndaveislu frá fótbolta.net úr leiknum.

Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Víði Garði. Leikurinn fer fram laugardaginn 13.júlí.

Borja López Laguna setti þrennu! mynd: fótbolti.net