Magnaður ferill Atla Viðars á enda
Dalvíkingur Atli Viðar Björnsson gaf út í morgun að ferill hans væri á enda og kominn tími til að hefja nýjan kafla. Atli Viðar er margfaldur Íslands- og bikarmeistari með FH ásamt því að vera þriðji markahæsti leikmaður efstu deildar Íslandsmóts karla frá upphafi með 113 mörk.
“Rúmum 32 árum eftir fyrsta fótboltamótið, 22 árum eftir fyrsta meistaraflokksleikinn með Dalvík og eftir 18 ár hjá FH er skrýtið að vera allt í einu orðinn “fyrrverandi” fótboltamaður.
Tel samt að nú sé ágætt að setja punkt og hefja nýjan kafla.
Ég hef verið ótrúlega lánsamur að fá að taka þátt í allri velgengninni með FH undanfarin ár og geng þakklátur af velli.
Fótboltinn hefur verið stór hluti af lífi mínu alla mína tíð og verður það áfram, bara með allt öðrum hætti.
Takk fyrir mig.
Luv!”
Atli Viðar hefur á árum sínum með FH unnið til fjölda titla og skorað 113 mörk í efstu deild fyrir félagið. Þessi 38 ára gamli framherji varð Íslandsmeistari með FH árin 2004, 2005, 2006, 2008, 2009, 2012, 2015 og 2016. Þá varð hann bikarmeistari með liðinu árin 2007 og 2010.
Atli Viðar hóf feril sinn hjá Dalvík áður en hann flutti sig í Hafnarfjörðinn fyrir 18 árum, en síðan þá hefur hann leikið með FH utan eins tímabils með Fjölni sem lánsmaður árið 2007.
Atli á að baki fjóra A-landsliðsleiki á ferli sínum, hann hefur fengið Gull, Silfur og Bronsskó efstudeildar karla ásamt því að skora mörg fræg og eftirminnanleg mörk fyrir félag sitt.
Á ferli sínum hefur Atli Viðar m.a. tvívegis gengið í gegnum erfið krossbandaslit á hnéi og verið frá í langan tíma en alltaf komið tvíefldur til baka.
Atli Viðar – Til hamingju með frábæran feril, fyrirmynd ungra Dalvíkinga.