Okkar maður hljóp fyrir Krabbameinsfélagið

Brúar-maðurinn knái Heiðar Andri Gunnarsson, nemandi á félags- og hugvísindabraut VMA, efndi til sérstaks áheitahlaups til styrktar Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Heiðar gerði þetta í tengslum við Vorhlaup VMA sem fram fór nýverið.

Okkar maður skráði sig í 10 km hlaup og safnaði hann u.þ.b. 180 þúsund krónum í áheit. Frá þessu er greint á heimasíðu VMA.

„Ég hafði aldrei á ævinni hlaupið áður í svona hlaupi. En mig langaði til þess að prófa þetta og jafnframt vildi ég hafa einhverja ástæðu fyrir því að hlaupa. Ég ákvað því að efna til áheitahlaups og áheitin myndu renna til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Ástæðan er sú að amma mín greindist nýverið með krabbamein. Ég heyrði því í fjölskyldunni og vinum og það vildu allir leggja þessu lið og heita á mig – og þá gat ég ekki hætt við, ég varð að hlaupa,“ sagði Heiðar Andri.

Heiðar, sem er mikill stuðningsmaður D/R, hljóp að sjálfsögðu í nýju Dalvíkur/Reynis treyjunni frá Jako.

Brúamenn voru mættir til að styðja við bakið á sínum manni en til gamans má geta að einn leikmaður D/R var nýlega ráðinn hlaupaþjálfari Heiðars.
Heiðar kláraði 10 kílómetrana á topptíma!