Pétur Kristjánsson tekur við Dalvík/Reyni

Jóhann Hreiðarsson og Siguróli Kristjánsson í þjálfarateyminu!

Pétur Heiðar Kristjánsson, eða Peddi eins og hann er kallaður, hefur verið ráðinn sem nýr aðalþjálfari Knattspyrnudeildar Dalvíkur/Reynis. Samningurinn er til tveggja ára.

Peddi er ungur og efnilegur þjálfari en hann ætti að vera Dalvíkingum vel kunnugur því árin 2014 og 2015 var hann m.a. spilandi þjálfari liðsins.
Hann hefur einnig leikið fyrir félög eins og Þór, Keflavík, KA og Magna. Hann á að baki yfir 70 leiki fyrir Dalvík/Reyni frá árinu 2012.
Undanfarin ár hefur hann m.a. starfað sem aðstoðarþjálfari m.fl. KA sem og þjálfari yngriflokka.

Jóhann Hreiðarsson hefur einnig verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari liðsins. Jóa þarf vart að kynna fyrir Dalvíkingum en hann kom í þjálfarateymi Dalvíkur/Reynis fyrir síðasta tímabil. Jói hefur víðtæka reynslu úr þjálfun og góða þekkingu á neðri deildum, en Jói var þjálfari Dalvíkur/Reynis tímabilið 2009 og svo aðstoðarþjálfari nokkur tímabil þar á eftir.
Mikið gleðiefni og styrkleiki fyrir félagið að halda Jóa í þjálfarateyminu.

Siguróli Kristjánsson, Moli, er nýr aðstoðarmaður í teyminu og mun starfa sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnudeildar.
Moli er gríðarlega reyndur þjálfari og var frábær leikmaður á sínum tíma. Undanfarin ár hefur hann mest starfað í þjálfarateymi ÞórKA en einnig hefur hann verið í spennandi verkefnum innan KSÍ.
Hann mun starfa sem ráðgjafi knattspyrnudeildar í heild, jafnt fyrir þjálfarana, leikmenn og stjórnarmenn félagsins.

“Það ríkir mikil ánægja og spenna með nýtt þjálfarateymi félagsins. Við erum að fara af stað með nýja nálgun á ákveðin verkefni og vonandi mun það skila okkur á þann stað sem við teljum okkur eiga heima á. Síðasta tímabil voru mikil vonbrigði og félagið dregur lærdóm af því og við komum tvíelfdir til leiks.
Á næstu dögum fáum við vonandi fleiri jákvæðar fréttir og er undirbúningur næsta tímabils í fullum gangi” sagði Stefán Garðar Níelsson formaður Knattspyrndeildar Dalvíkur.

Áfram Dalvík/Reynir!

Frá vinstri til hægri: Siguróli Kristjánsson, Pétur Heiðar Kristjánsson, Jóhann Hreiðarsson og Stefán Garðar Níelsson formaður.

Aðrar fréttir