Samningur um uppbyggingu Dalvíkurvallar undirritaður

Í dag samþykkti sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar samning um uppbyggingu íþróttasvæðis á Dalvík en samningurinn þess efnis var undirritaður í gær, mánudaginn 14. maí. Undir samninginn rita sveitarstjóri fyrir hönd Dalvíkurbyggðar og formaður UMFS.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Dalvíkurbyggð.

Um nokkurra ára skeið hefur verið unnið að gerð deiliskipulags fyrir íþróttasvæðið á Dalvík. Tillaga þess efnis hefur verið samþykkt og staðfest í sveitarstjórn í dag, þriðjudaginn 15. maí. Í þeirri tillögu er gert ráð fyrir uppbyggingu á upphituðum gervigrasvelli á íþróttasvæðinu.

Dalvíkurbyggð og UMFS hafa skipað sameiginlega nefnd sem verður ráðgefandi og eftirlitsaðili með framkvæmdinni. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við völlinn hefjist á haustmánuðum 2018, en þá verður keppnisvöllurinn rifinn upp og hafist handa við jarðvinnu. Gert er svo ráð fyrir að gervigrasið verði lagt vorið 2019.

Hönnun á svæðinu stendur nú yfir en þegar fyrstu drög liggja fyrir munum við birta þær myndir og betri upplýsingar eins fljótt og auðið er.

Aðrar fréttir