Snorri Eldjárn: Bærinn iðar af lífi á leikdögum

Heimasíðan tók á dögunum gott kaffispjall við fyrirliða Dalvíkur/Reynis. Við skulum sjá hvað hinn lífsglaði og Kólumbíu-ættaði sprelligosi Snorra Eldjárn Hauksson hafði að segja um sumarið og framtíð knattspyrnunnar á Dalvík.

“Þetta sumar hefur verið alveg einstaklega gott. Mikið af uppöldum leikmönnum að spila fyrir félagið sem þýðir að áhugi íbúa Dalvíkurbyggðar eykst. Brúinn vaknaði til lífsins á ný þó réttar væri kannski að segja að hann hafi verið endurvakinn sem er auðvitað frábært. Hópurinn er mjög þéttur og það hefur verið mikið fjör bæði í æfingum og á ferðalögum sem skiptir miklu máli. Auk þess sitjum við á toppi deildarinnar þegar einungis tveir leikir eru eftir en það er að miklu leyti að þakka góðu gengi um mitt sumar. Við byrjuðum frekar brösulega og fengum mikið af mörkum á okkur. En um leið og liðið fór að verjast betur byrjuðu stigin að hrannast inn. Hins vegar hefur ágúst verið okkur erfiður og okkur gengið erfiðlega að vinna leikina okkar. Því þurfum við á öllum þeim stuðningi að haldast sem býðst í næstu leikjum til að hjálpa okkur að komast upp um deild.”

Kaffispjallið snýst svo að umgjörðinni og stemningunni í kringum fótboltann í Dalvíkurbyggð. Snorri hefur upplifað margt, hæðir og lægðir í bláu treyjunni. Hvernig er tilfinningin núna og af hverju?

“Nú hef ég spilað hérna í 9 ár og ég get með sanni sagt að umgjörðin í kringum boltann hefur aldrei verið betri. Stjórnarmenn eru mjög sýnilegir og duglegir við að byggja stemningu í kringum liðið sem hefur smitað frá sér og út í bæ. Bærinn virðist iða á leikdögum og margir mæta á leiki til að styðja liðið til sigurs. Við leikmennirnir finnum fyrir ábyrgðinni sem því fylgir að klæðast draumabláu treyjunni og leggjum fram blóð svita og tár til að uppskera þessi þrjú stig fyrir áhorfendurna og okkur sjálfa.”

Nú þegar aðeins tveir leikir eftir, og mikið í húfi, Hvernig er stemningin í hópnum?

“Eins og fyrr sagði er stemningin mjög góð. Við erum allir samstilltir á markmiðið sem er að fara upp en við tökum bara einn leik í einu. Svenni þjálfari eru mjög góður að halda mönnum við efnið og passa að við förum ekki fram úr sjálfum okkur. Æfingarnar hafa hinn gullna meðalveg milli hláturs og keppni. Mönnum er heitt í hamsi og mikið keppnisskap á hverri æfingu. En það er alltaf skilið eftir á vellinum og eftir æfingu er yfirleitt góð stund í kaldakarinu og heita pottinum þar sem mikið er hlegið.”

Snorri í baráttunni

Framtíðin. Hvernig sérðu hana fyrir þér. Nú er nýr völlur á leiðinni, fjölgun iðkennda í yngriflokkum, aukinn áhugi. Hver er þín tilfinning?

“Sú staðreynd að erfitt hefur reynst að halda úti liðum í 3. og 4. flokki karla og kvenna er mikil blóðtaka fyrir bæði bæjarfélagið og fótboltann. Erfitt hefur reynst að halda iðkendum og brúað bilið milli yngri flokka og meistaraflokks. Þeir sem virkilega vilja halda áfram í fótbolta hafa þurft að leita inneftir í lið Þórs eða KA og ekki allir halda áfram eftir það. Með betri aðstöðu hérna á Dalvíkurvelli mun vonandi vera auðveldara að halda fjölda iðkennda í gegnum yngri flokkana því þó svo að allir verði ekki atvinnumenn í fótbolta er bara svo gefandi að spila fótbolta með félögunum. Ekki nóg með það að félagsskapurinn sé sterkur heldur er fótbolti frábær forvörn fyrir börnin. Ég bind miklar vonir við að aðstaðan verði góð og muni auka lífsgæði bæjarins til muna. Ég horfi a.m.k. bjartur til framtíðar.”

Segðu okkur eitthvað sem almenningur veit ekki. Eitthvað sem snýr að liðinu, leikmanni/mönnum eða knattspyrnunni á Dalvík.

“Það byrjaði sú áskorun þegar tímabilið var hálfnað að eftir hvern sigurleik myndu einhverjir tveir aflita á sér hárið. Þessi áskorun var gerð þegar allt gekk vel og við unnum næstum hvern einasta leik. Áskorunin fór vel af stað og náðum við í þrjá sigurleiki í röð. Í kjölfarið voru 6 kollar orðnir ljóshærðir/hvíthærðir og fólk var farið að taka eftir þessu. Hins vegar höfum við ekki náð að fylgja eftir góðu gengi svo þetta hefur svolítið dottið upp fyrir sig. En þetta a.m.k. útskýrir alla glókollana sem þið hafið séð á vellinum að undanförnu.”

Heimasíðan þakkar Snorra fyrir kaffispjallið.

Aðrar fréttir