Upphitun: Fyrsti heimaleikur á Dalvíkurvelli

Þá er loksins komið að fyrsta heimaleik sumarsins á Dalvíkurvelli! Leikið verður á morgun, laugardaginn, 9. júní, gegn KFG frá Garðabæ.
Leikurinn byrjar klukkan 14:00.

Dalvík/Reynir hefur byrjað Íslandsmótið ágætlega, tveir sigrar og tvö töp. Deildin er þétt en þessi 6 stig skila Dalvík/Reyni í 4. sæti deildarinnar sem stendur.
Leikmenn liðsins eru staðráðnir í að koma sterkir til baka eftir tap í síðustu umferð.

KFG er með gífurlega öflugt lið og hefur undanfarin ár verið eitt af betri liðum deildarinnar. Í þeirra herbúðum má finna leikmenn með reynslu úr atvinnumennsku og Pepsideildinni. Nöfn á borði við Veigar Pál Gunnarsson, Garðar Jóhannsson, Magnús Björgvinsson, Tómas Joð Þorsteinsson ásamt fleirum öflugum leikmönnum má finna í þeirra herbúðum.
Þjálfari liðsins er Lárus Guðmundsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður.

KFG situr í 3. sæti deildarinnar með 9 stig, en í síðustu umferð tapaði liðið gegn KH. Þar áður voru þeir búnir að sigra KF, Einherja og Vængi Júpíters.

Við hvetjum fólk til að mæta á völlinn og styðja okkar menn til sigurs.

ÁFRAM D/R

Aðrar fréttir