Óskar Bragason tekur við Dalvík/Reyni (Staðfest)

Óskar Bragason hefur verið ráðinn nýr þjálfari Dalvíkur/Reynis fyrir komandi tímabil í 2.deild karla. Óskar skrifaði undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis.
Á sama tíma framlengdu þrír leikmenn liðsins samninga sína við D/R.

Óskar er þaulreyndur þjálfari en undanfarin þrjú tímabil hefur hann starfað sem aðstoðarþjálfari KA þar sem hann myndaði sterkt teymi ásamt Srdjan Tufegdzic (Túfa).
Undir þeirra stjórn vann KA Inkasso-deildina árið 2016 og siglt lygnan sjó í Pepsí-deildinni undanfarin tvö tímabil.

Óskar er með UEFA-A þjálfaragráðu.

Óskar Bragason, sem er fæddur 1977, var lunkinn leikmaður sjálfur en hann lék m.a. með KA, Vask, Nökkva og Magna á sínum ferli. Óskar á að baki landsleiki fyrir yngrilandslið Íslands.
Hann hefur lengi verið viðloðandi knattspyrnu og starfaði sem yngriflokkaþjálfari áður en hann færði sig yfir í meistaraflokk karla.

“Við erum gífurlega ánægðir með ráðninguna á Óskari Bragasyni. Óskar tikkar í öll þau box sem við fórum af stað með í þjálfaraleitina. Hann er hress og skemmtilegur karakter en fyrst og fremst veit hann haug um fótbolta og með skýra sýn á verkefnið. Við teljum hann rétta manninn í að halda áfram því góða starfi sem unnið er í kringum fótboltann í Dalvíkurbyggð” sagði Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar.

Heimasíðan mun ræða nánar við nýjan þjálfara liðsins á næstu dögum.

Hér fyrir neðan er myndasería frá undirskrift samninga. Myndirnar tók Haukur Snorrason.

Velkominn í Dalvík/Reyni, Óskar!

Aðrar fréttir